Miguel Goncalves sjúkraþjálfari Diogo Jota í Portúgal var einn af þeim síðustu sem sá framherjann á lífi. Hann hafði verið að vinna með Jota fram eftir kvöldi á miðvikudag.
Goncalves var með Jota til 20:30 um kvöldið en þá voru hann og bróðir hans Andre að fara að leggja af stað í ferðalag.
Ferðinni var heitið til Santander á Spáni til að ná ferju yfir til Englands, Jota hafði nýlega farið í aðgerð á lunga og var ekki ráðlagt að fljúga strax.
„Ég kvaddi þá bræður um 20:30, bróðir hans var frábær einstaklingur sem vildi fara með og veita félagsskap. Þeir ætluðu að eyða góðum tíma saman,“ sagði Goncalves við fjölmiðla í Portúgal.
„Þeir ákváðu að ferðast um nóttina því þá væri ekki eins heitt, þeir ætluðu hins vegar ekki að keyra þetta allt í einu.“
„Jota sagði mér að ferðin tæki 8 klukkustundir en þeir ætluðu að gista á hóteli í Burgos til að hvílast. Diogo var mikill atvinnumaður, þeir ætluðu bara að koma til Santander rétt áður en báturinn færi.“
„Fjölskylda Jota ætlaði svo að koma með flugi, á mánudag átti Jota svo að fara í skoðun vegna þess að hann fór í aðgerð.“
Goncalves segir það af og frá að eitthvað misjafnt hafi átt sér stað fyrir ferðalag þeirra bræðra. „Ég hef lesið hluti á netinu sem eru tóm þvæla, Diogo Andre voru ekki í neinum partýi. Það var ekkert svoleiðis.“