Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari er sammála þeirri ákvörðun dómarans að reka Hildi Antonsdóttur af velli í tapi Íslands gegn Finnlandi á EM á miðvikudag.
Hildur fékk sitt annað gula spjald snemma í seinni hálfleik í svekkjandi 1-0 tapi. Margir urðu steinhissa, enda leit út fyrir að Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefði brotið af sér.
Í endursýningum mátti svo sjá að Hildur steig á leikmann Finna. Í samtali við 433.is í gær var Þorsteinn spurður að því hvort hann væri sammála dómnum daginn eftir leik.
„Já,“ sagði þjálfarinn einfaldlega. Hann og fleiri skildu þó hvorki upp né niður í dómnum í leiknum sjálfum.
„Ég sá þetta ekki. Karó segir við okkur að hún hafi stigið á hana svo við héldum það.“
Ítarlegt viðtal við Þorstein er í spilaranum.