Það eru líklega allir til í að taka fjármál sín föstum tökum, greiða niður skuldir og safna sparifé. En hvernig á fólk að fara að slíku? Fjármálaráðgjafinn Björn Berg mælir með snjóboltaaðferðinni.
Björn segir frá því í grein sinni á Vísi að honum hafi borist bréf frá 31 árs gömlum manni. Maðurinn segir sig og konu sína hafa verið nýlega búin að taka til í fjármálum heimilisins og ná að leggja til hliðar ágætis summu í hverjum mánuði.
„Við erum hinsvegar ekki viss hvort við eigum greiða niður hin ýmsu lán, fjárfesta í hlutabréfum/sjóðum, láta peninginn ávaxtast inná reikningi eða gera allt í senn. Hvað er best að gera þegar til lengri tíma er litið?“
Björn segist svara manninum almennt þar sem hann viti ekki hvaða lán þau skuldi, hvað þau eigi í afgang mánaðarlega og hvernig sparnað þau eigi.
Hann gefur upp ýmis góð ráð en þegar kemur að skuldunum sé það snjóboltaaðferðin sem gefist mörgum vel. Það sé að ráðast á fullum þunga á minnsta lánið og greiða það hratt upp og síðan koll af kolli á næstu lán. „Hún hefur reynst vel til þess fallin að halda fólki við efnið og greiða skuldir hratt niður,“ skrifar Björn.
Lesa má greinina í heild sinni hér og senda Birni spurningar hvað varðar fjármál.