Rob Holding varnarmaður Crystal Palace og fyrrum leikmaður Arsenal er mættur til Sviss til að sjá íslenska landsliðið mæta Finnlandi í kvöld.
Holding er kærasti Sveindísar Jane Jónsdóttur sem er ein skærasta stjarna íslenska liðsins.
„Ég er spenntur, þetta er í fyrsta sinn sem ég fer á stórmót hjá konum. Þetta ætti að vera góður leikur, það myndi hjálpa íslenska liðinu mikið að vinna þennan leik,“ sagði Holding í samtali við 433.is í Sviss í dag.
Leikur Íslands og Finnlands hefst klukkan 16:00 í dag.
„Það er mikilvægt að vinna í dag.“
Holding er mættur að fylgjast með Sveindísi áður en hann þarf sjálfur að mæta á undirbúningstímabil en ástarsamband þeirra hefur vakið athygli. „Ég vona að Sveindís skori, ég þarf að æfa Víkingaklappið mitt.“
„Ég er með foreldrum Sveindísar og nýt þess að vera hérna, ég nýt þess að vera með íslensku fólki.“
„Þegar ég hef komið til Íslands um jólin, allir sem við sáum virtust þekkjast. Þetta er þéttur hópur af fólki, það eru allir að ræða saman.“
Viðtalið er í heild hér að neðan