Bjarni Helgason, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifaði áhugaverðan pistil í blað gærdagsins, þar sem hann kom inn á markmiðasetningu íslenska kvennalandsliðsins fyrir komandi Evrópumót.
Ísland hefur leik í dag gegn Finnlandi, en um er að ræða fyrsta leik mótsins. Finnar eru á pappír slakasta lið riðilsins, en í riðli Íslands eru einnig Sviss og Noregur.
Íslenska liðið og þjálfarinn Þorsteinn Halldórsson hefur ekki farið leynt með það að liðið ætli sér upp úr þessum riðli og því fagnar Bjarni.
„Ég er ánægður með markmiðasetninguna hjá íslenska liðinu á þessu stórmóti. Liðið ætlar sér að komast áfram,“ skrifaði hann meðal annars í pistli sínum.
„Það er miklu skemmtilegra markmið en að vinna leik, sem var yfirlýst markmið fyrir mótið á Englandi. Það var einhver lúserabragur yfir því markmiði,“ skrifaði hann enn fremur og á við EM 2022, þar sem Ísland gerði þrjú jafntefli og fór ekki upp úr riðlinum.
„Við erum með leikmannahópinn til þess að fara upp úr þessum riðli og við eigum að gera það, annað væri í raun skandall.“