Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Það er ekki yfir miklu að kvarta hér í Thun í Sviss, þar sem íslenska kvennalandsliðið hefur leik á EM á morgun er liðið mætir Finnum. Íslenskir fréttamenn hafa þó lýst vandræðum með skort á loftkælingum á hótelherbergjunum hér, en mikill hiti er í landinu.
„Hótelið stóðst ekki alveg væntingar. Og það er einhver lenska hér í Sviss að fólk trúir ekki á loftkælingu í herbergjum. Þið getið ímyndað ykkur aðstæðurnar upp á hótelherbergi. Það er auðvitað skrýtið að maður sé að kvarta yfir því en loftið er ansi þungt og næturnar erfiðar,“ sagði Aron Guðmundsson, íþróttafréttamaður Sýnar og Vísis, í hlaðvarpi 433.is um EM í dag.
Á fínni hótelum virðast gestir einnig glíma við sama vanda, eins og landsliðskonur sögðu í samtali við fjölmiðlamenn í gær.
„Það er lítil vifta í mínu herbergi og staðan er sú að maður setur hana á náttborðið og svo blæs hún framan í mann alla nóttina. Og þetta er líka staðan hjá stelpunum á þeirra glæsihóteli,“ sagði Aron enn fremur.