Tónlistargagnrýnandi Vísis Jónas Sen gaf kórtónleikum sem haldnir voru í Hörpunni á föstudaginn falleinkunn, sem og íslenskri kórmenningu eins og hún leggur sig. Gagnrýnin hefur vakið töluverða athygli og hefur Jónas verið sakaður um að senda íslenskum kórum og allri starfseminni í kringum þá kaldar kveðjur.
Sjá einnig: Jónas hraunar yfir kórtónleika í Hörpu:
Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Jónas er tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins, Magnús Lyngdal Magnússon. Hann skrifar á Facebook að sjálfur hafi hann það fyrir reglu að skrifa bara uppbyggilega tónlistardóma.
„Jafnvel þó svo að oft þurfi að benda á eitthvað sem betur hefði mátt fara. Það er nefnilega alltaf hægt að skrifa uppbyggilega gagnrýni, þó svo að eitthvað hafi farið úrskeiðis og raunar held ég að allir – ekki hvað síst listafólkið sjálft – græði mest á slíkum skrifum.“
Magnús bætti við að það sé þó ekki alltaf auðvelt að skrifa gagnrýni í fámennu landi. Það sé alltaf hætt við meðvirkni.
„Það er bara eitthvað sem viðkomandi gagnrýnandi verður að taka sjálfur á. Samhengislaust raus hjálpar hins vegar engum (og aftur er ég að tala almennt) og ég hef það einnig fyrir reglu að mæta aldrei illa stemmdur á tónleika sem ég á að rýna; slíkt hefur alltaf áhrif á dóminn sjálfan.“
Ekki eru þó allir á sama máli og Magnús. Gagnrýnandinn Jón Viðar Jónsson tjáir sig í athugasemd við færslu Magnúsar þar sem hann segir tal um uppbyggilega gagnrýni þarfaleysu.
„Annars finnst mér þetta tal um „uppbyggilega“ gagnrýni mesta þarfaleysa; ef gagnrýni er á annað borð sönn og rétt, þá hlýtur hún að vera „uppbyggileg“ með því að hún afhjúpar og dregur fram villur og veilur sem listafólkið sjálft veit annað hvort ekki af eða er í afneitun gagnvart, að ekki sé nú talað um alla „aðdáendurna“ sem iðulega fylgja sínu liði út í opinn dauðann af einskærri þverúð og barnaskap.“
Jón Viðar segist ekki vera gjarn á að nota orðið meðvirkni en hann gæti freistast til þess í þessu samhengi. Gagnrýnendur eins og Magnús séu kallaðir til að skrifa gagnrýni því þeir hafa sýnt fram á þekkingu á hinum listræna miðli og sýnt fram á innsæi og listræna dómgreind.
Vissulega séu til undantekningar hér á landi sem séu sláandi en þar sé þá yfirleitt um að ræða fólk sem „voldugir ritstjórar“ eða stjórnendur hafa þvingað inn á sinn miðil.
„Í stærri samfélögum með skýrari hefðir og viðmiðanir er slíkt miklu erfiðara. Mitt vit á tónlist er nú bara leikmannsvit, en það sem ég hef séð af þínum skrifum þarftu ekkert að vera að biðja neinn forláts á þeim – fyrir minn smekk mættirðu þó alveg vera hvassari og meira afgerandi á stundum, samanber ógnvaldinn Jónas Sen, – en það er nú bara minn smekkur.“
Eins og áður segir hefur gagnrýni Jónasar vakið nokkra umræðu.
Tónlistarmaðurinn Vilhelm Anton Jónsson spyr hvort það sé ekki næst á dagskrá að fá Jónas Sen til að lýsa Eurovision.
Helga Margrét Marzellíusardóttir, formaður félags íslenskra kórstjóra, skrifar langa færslu þar sem hún segir íslenskt kórastarf vera algjörlega ósýnilega perlu. Um sé að ræða grasrótarstarf sem mæti oft litlum skilningi.
„Dómar Jónasar um tónlist eru þannig að ég sem tónlistarmaður þarf fyrst að skófla mig í gegnum misfyndna meinfyndni, hæðni og oft á köflum andstyggð. Áður en ég kemst svo loksins að því sem kallast kjarni málsins og nýst getur tónlistarfólki sem uppbyggileg gagnrýni.“
Tónlistarmaðurinn og kórstjórinn Michael Jón Clarke, spyr hver sé tilgangur svona gagnrýni. „Að gera svona lítið úr svona flutningi áhugamanna er forkastanlegt.“ skrifar hann á Facebook þar sem hann minnir á að kórar séu skipaðir áhugamönnum og að þessu sinni var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur heldur flutt verkið Carmina Burana eftir Carl Orff. Áhugasöngvarar verði aldrei samir eftir flutning svona verks, sama hvort það gangi vel eða illa. Eins séu þessir söngvarar mögulegir áheyrendur annarra tónlistarmanna á borð við Jónas Sen en líklega muni meðlimum kóranna sem stigu á stokk í Hörpunni á föstudag ekki detta það til hugar að mæta á tónleika með Jónasi eftir þessa útreið.
„Farðu að finna annan vettvang fyrir þína skapvonsku Jónas“