Réttarhöld hófust að nýju í apríl yfir Weinstein en hann var sem kunnugt er dæmdur í 23 ára fangelsi árið 2020. Málið var endurupptekið þar sem áfrýjunardómstóll komst að því að málsmeðferðin á sínum tíma hefði ekki verið sanngjörn.
Mann fór í vitnastúkuna í gær og rifjaði upp þegar Weinstein nauðgaði henni á Doubletree-hótelinu í Midtwon árið 2013. Lýsti hún meðal annars því sem hún fann í ruslinu eftir að Weinstein hafði lokið sér af en um var að ræða sprautunál og umbúðir fyrir stinningarlyf sem Weinstein hafði greinilega notað. Á umbúðunum var undarleg merking, „necro-eitthvað“ sem hún ákvað að fletta upp á Google.
„Ég fann á Google að það þýddi í rauninni „dauður limur“ og maður sprautar sig með þessu, en lyfið má aðeins nota ákveðið oft með ákveðnu millibili,“ sagði hún og bætti við: „Ég varð skelfingu lostin. Fékk ég eitthvað smit? Var ég í hættu? Þetta var hræðilegt.“
Fyrir dómi kom fram að eftir atvikið á Doubletree-hótelinu hafi Mann haldið áfram flóknu sambandi við Weinstein, sem hún kallaði Dr. Jekyll og Mr. Hyde, vegna þess að hún vissi aldrei hvar hún hefði hann.
„Allir sögðu að Hollywood væri leikvöllur djöfulsins. Hann sagði mér að ég væri falleg og hvatti mig áfram, og það skipti mig miklu máli. En á öðrum stundum kom þessi dökka hlið hans í ljós. Stundum vildi ég ekki gera eitthvað og fannst ég bara vera notuð fyrir kynlíf,“ sagði hún og bætti við að orðið „nei“ hafi stundum virkað eins og hvetjandi fyrir hann.
Weinstein, sem er orðinn 73 ára, sat í réttarsalnum í hjólastól á meðan Mann lýsti því fyrir aðstoðarsaksóknara málsins, Matthew Colangelo, að hún hefði óttast að enginn myndi trúa henni. Hún hafi óttast valdamikla vini Weinsteins, til dæmis við fyrrverandi forsetann Bill Clinton.
„Ég man að ég ímyndaði mér að ef ég myndi nokkurn tíma segja eitthvað, myndi hann hringja í vin sinn og leyniþjónustan myndi koma og sækja mig. Ég var með allskonar hugmyndir.”