Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema hefur úrskurðað Háskólanum í Reykjavík (HR) í vil vegna kæru nemanda við skólann. Nemandinn, sem var með samþykkt sérúrræði í námi vegna meðal annars prófkvíða, kærði framkvæmd sjúkraprófa en skólinn ætlaði að láta hann gangast undir tvö sjúkrapróf á einum og sama deginum og svo fór að nemandinn mætti í hvorugt prófið og hefur ekki lokið náminu á þeim tíma sem stefnt var að.
Nemandinn hóf BSc nám í sálfræði við HR 2020 og ætlaði sér að útskrifast vorið 2024. Vorið 2021 fékk nemandinn samþykkt sérúrræði í námi vegna ADHD, depurðar og ofsakvíða, þar með talið prófkvíða. Hann afboðaði sig í tvö lokapróf í apríl 2024 vegna veikinda, annars vegar lokapróf í íþróttasálfræði, sem var valnámskeið úr íþróttafræðideild, sem átti að fara fram 15. apríl 2024 og hins vegar próf í hugrænum taugavísindum, sem var skyldunámskeið í sálfræðideildinni, sem átti að fara fram daginn eftir, 16. apríl 2024.
Skráði nemandinn sig þá í sjúkrapróf í maí og voru bæði prófin dagsett 30. maí, það fyrra frá klukkan 9-12:45 og það seinna frá 14:00-17:45. Sérstaklega var tiltekið að nemendur yrðu að vera mættir hálftíma áður en próftíminn ætti að hefjast.
Þremur dögum áður en hann átti að mæta í sjúkraprófin óskaði nemandinn eftir því að fyrra prófið yrði fært til. Því var neitað á þeim grundvelli að ekki væri hægt að koma í veg fyrir alla árekstra á sjúkraprófum auk þess sem fleiri nemendur væru skráðir í prófið. Engu breytti þótt nemandinn hafi snúið sér beint til forseta sálfræðideildar.
Nemandinn mætti í hvorugt sjúkraprófið og fékk því fall í báðum námskeiðum og útskrifaðist því ekki í júní 2024 eins og stefnt hafði verið að. Honum var boðið að skólagjöld vorannar 2025 yrðu felld niður svo hann gæti lokið námskeiðunum og þar með náminu en nemandinn á aðeins eftir að ljúka námskeiðunum tveimur til að geta útskrifast. Nemandinn leitaði hins vegar til lögmanns og þegar honum var tjáð að niðurstaðan yrði ekki endurskoðuð var málið kært til nefndarinnar.
Nemandinn krafðist þess að ákvörðun skólans um að neita að færa fyrra prófið yrði felld úr gildi. Krafðist hann þess einnig að fá að taka bæði prófin.
Vísaði nemandinn til ákvæða laga um háskóla sem kveða á um sérstakan stuðning við nemendur sem glíma við námsörðugleika eða veikindi. Sagði hann háskóla hafa val um þann stuðning og aðstoð sem sé veitt en beri þó ábyrgð á því að úrræðin sem séu valin dugi til þess að ná þeim markmiðum sem fram komi í lögunum. HR hafi enn fremur komið á kerfi til að styðja nemendur með fatlanir eða hvers kyns hamlanir á einstaklingsmiðaðan hátt. Með framkvæmd sjúkraprófanna hafi hann verið beittur mismunun fyrir að veikjast þegar lokapróf stóðu fyrir dyrum. Í ljósi þess að hann glími við ofsakvíða, sérstaklega þegar komi að prófum, hafi honum verið gert einstaklega erfitt fyrir með því að gera honum að þreyta tvö próf sama daginn og sér í lagi þar sem sjálf útskriftin í náminu hafi verið að veði.
Í andsvörum HR kom fram að eina sérúrræðið sem nemandinn hafi fengið samþykkt hafi verið 25 prósent lengri próftími vegna ADHD og kvíða. Í vottorði geðlæknis hans hafi ekkert komið fram um að hann þyrfti frekari stuðning og sjálfur hafi nemandinn ekki bent á nein önnur úrræði sem gætu gagnast honum.
Sagði skólinn það algengt í háskólum hérlendis að nemendur geti lent í að þurfa að taka tvö próf sama daginn og ómögulegt sé að búa til próftöflu án árekstra. Það hafi verið einnig erfitt að forðast árekstra í tilviki nemandans þar sem hann hafi verið að taka próf á milli ára og deilda. Enn fremur tíðkaðist það einnig í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri að nemendur með sérúrræði væru ekki undanþegnir því að taka tvö próf sama daginn.
Það væri sömuleiðis erfitt að forðast árekstra þegar kæmi að sjúkraprófum þar sem þau stæðu yfir á styttra tímabili. Fleiri nemendur hafi átt að taka prófið og ómögulegt hefði verið að færa próf eins nemanda yfir á annan dag. Vildi skólinn meina að slík aðgerð hefði falið í sér ójafnfræði gagnvart öðrum nemendum og að nemandinn hefði notið mikil skilnings og sveigjanleika í námi sínu við sálfræðideildina og að skólinn hafi uppfyllt allar skyldur sínar gagnvart honum.
Í niðurstöðu áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema segir að í málinu liggi fyrir að 520 nemendur við HR séu með sérúrræði og þar af 255 með taugasálfræðilegan vanda. Taka verði undir það með skólanum að nánast ómögulegt yrði að skipuleggja prófatöflur og þá sér í lagi prófatöflu fyrir sjúkra- og endurtektarpróf, sem alla jafna séu styttra tímabil en hefðbundin prófatafla, með þeim hætti að próf sem séu á milli deilda, námsbrauta og ára skarist ekki, en námskeiðin tvö voru ekki innan sömu deildar. Að mati nefndarinnar verði ekki séð að lög um háskóla feli í sér að nemendur eigi rétt til þess, óháð sérúrræðum, að sjúkra- og endurtektarpróf séu færð til ef þau skarist. Óhjákvæmilegt sé að sú aðstaða geti komið upp ef nemendur taki tvö eða fleiri próf á slíku próftímabili.
Nemandinn hafi þar að auki verið með sérstakt úrræði í formi lengri próftíma og því verði ekki séð að skólinn hafi ekki uppfyllt þær skyldur sem hann hafi gagnvart honum, samkvæmt lögum um háskóla.
Kröfum nemandans um að ákvörðun HR, um að neita að færa annað sjúkraprófið, yrði felld úr gildi var þar með hafnað.