Skelfilegt tímabil Manchester United hélt áfram í gær þegar liðið tapaði 0-2 gegn West Ham á heimavelli.
United er í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og getur þakkað slökum nýliðum deildarinnar fyrir það að falldraugurinn ógni þeim hreinlega ekki nú þegar tveimur umferðum er ólokið.
Þetta var níunda tap United á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og er það versti árangur liðsins síðan 1962-1963, en þá tapaði liðið einnig níu leikjum á heimavelli. Það sama gerðist 1930-1931 og 1933-1934.
United á enn heimaleik eftir, í lokaumferðinni gegn Aston Villa, og getur því slegið þetta afar vafasama met þar.
Ótrúlegt en satt geta Rauðu djöflarnir þó enn bjargað tímabilinu með því að vinna Evrópudeildina og landa um leið Meistaradeildarsæti, en liðið mætir Tottenham í úrslitaleik í næstu viku.