Arne Slot, stjóri Liverpool, segir að Jurgen Klopp hafi sent sér skilaboð mjög skömmu eftir að Englandsmeistaratitillinn var í höfn um síðustu helgi.
Liverpool gulltryggði titilinn með 5-1 sigri á Tottenham, þó enn sé fjórum umferðum ólokið.
Slot er á sínu fyrsta tímabili með Liverpool, en hann tók við af Klopp eftir farsæl níu ár Þjóðverjans hjá félaginu.
„Ég fékk auðvitað mörg skilaboð. Þetta var ótrúlegur dagur, einn sá besti í lífi mínu,“ sagði Slot á blaðamannafundi í dag.
„Jurgen óskaði mér til hamingju og sagði að nú gæti ég séð hversu sérstakt félag þetta er, ég spilaði nú rullu í sögu félagsins og þess háttar. Hann var svo glaður fyrir hönd okkar og stuðningsmanna.“