fbpx
Fimmtudagur 01.maí 2025
Pressan

Blóðugur uppruni 1. maí

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 1. maí 2025 10:00

Teiknuð mynd af sprengingu og skothríð sem varð á baráttufundi verkafólks á Haymarket-torgi í Chicago 4. maí 1886. Þessi atburður átti stóran þátt í að 1. maí varð að alþjóðlegum baráttudegi verkafólks.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag er 1. maí, alþjóðlegur baráttudagur verkafólks. Dagurinn er haldinn hátíðlegur í stórum hluta heimsins en sum lönd hafa farið þá leið að hafa sína eigin verkalýðsdaga. Eitt af þessum löndum eru Bandaríkin en þar er dagur verkafólks fyrsta mánudaginn í september. Það sem gerir það ekki síst athyglisvert er sú staðreynd að atburður nokkur í Bandaríkjunum, þar sem fólk lét lífið, átti stóran þátt í að ákveðið var að gera 1. maí að alþjóðlegum degi verkafólks.

Þann 4. maí 1886 var efnt til fjöldafundar á Haymarket-torgi í borginni Chicago í Bandaríkjunum. Tilgangur fundarins var að berjast fyrir því að 8 stunda vinnudagur verkafólks yrði lögfestur.

Daginn áður hafði verið haldinn samskonar fundur í verksmiðju í borginni en hann hafði endað með því að tveir fundarmenn létust eftir að hafa verið skotnir af lögreglumönnum og fjöldi annarra slasaðist. Einnig slasaðist töluverður fjöldi lögreglumanna sem voru á staðnum.

Tveimur árum áður höfðu landsamtök verkalýðsfélaga gefið það út að krafist væri þess að átta stunda vinnudagur yrði lögfestur og yrði þar með almennt viðmið á vinnumarkaði í seinasta lagi 1. maí 1886. Þegar það varð ekki raunin var efnt til umfangsmikilla verkfalla víða um landið þennan dag og næstu daga.

Sprengjan

Þegar fundurinn á Haymarket-torgi hófst að kvöldi 4. maí var því óróinn í borginni töluverður. Talið er að um 1.000 – 3.000 manns hafi verið viðstaddir og töluverður viðbúnaður lögreglu var á svæðinu.

Þegar síðasti ræðumaður kvöldsins, presturinn og aktívistinn Samuel Fielden, var langt kominn með ræðu sína kom fjöldi lögreglumanna askvaðandi og sá þeirra sem æðstur var skipaði Fielden að hætta að tala og viðstöddum að yfirgefa svæðið. Skyndilega var hent heimatilbúinni sprengju úr dýnamíti, að lögreglumönnunum, sem sprakk þegar í stað. Einn þeirra lést samstundis og fjöldi félaga hans særðist, sumir mjög illa. Upphófst í kjölfarið mikil skothríð frá bæði lögreglunni og fundargestum.

Vitni greindi á um hverjir byrjuðu að skjóta en meirihluti þeirra vildi meina að skothríðin hafi byrjað hjá lögreglunni en töluvert var um að lögreglumennirnir yrðu fyrir skotum hvers annars. Á endanum lágu 7 lögreglumenn og 4 fundargestir í valnum. Aldrei hefur fengist fyllilega skorið úr því hversu margir lögreglumenn urðu fyrir skotum félaga sinna og hversu margir voru skotnir af vopnuðum fundargestum.

Harkan

Í kjölfarið voru verkalýðsfélög, stjórnleysingjar (anarkistar) og baráttufólk í Bandaríkjunum beitt mikilli hörku og vinnuveitendur náðu vopnum sínum á ný og ekki var tekið í mál að hafa átta stunda vinnudag.

Aldrei hefur verið upplýst hver það nákvæmlega var sem henti sprengjunni að lögreglumönnunum.

Til að gera langa sögu stutta þá voru átta stjórnleysingjar á endanum ákærðir og dæmdir fyrir samsæri um að fremja þetta tilræði. Einn þeirra var í réttarhöldunum sagður mögulega hafa sett sprengjuna saman en hvorki hann né nokkur af hinum sjö hefði hent henni. Einn var dæmdur í 15 ára fangelsi en hinir sjö fengu dauðadóma. Í tveimur tilfellum var dauðadómunum breytt í lífstíðarfangelsi af ríkisstjóra Illinois ríkis. Einn tók eigið líf í fangelsinu og þeir fjórir sem eftir stóðu voru hengdir. Sex árum síðar var nýr ríkisstjóri tekinn við og hann náðaði þá þrjá sem enn voru í fangelsi og gagnrýndi málsmeðferðina harðlega.

Dagurinn

Þremur árum eftir atburðina á Haymarket-torgi, í júlí árið 1889, var haldin alþjóðlegur fundur í París, höfuðborg Frakklands. Hann var haldinn á vegum alþjóðlegra samtaka þar sem saman voru komnir fulltrúar sósíalískra stjórnmálaflokka, flokka jafnaðarmanna og verkalýðshreyfinga. Á ensku voru þessi samtök kölluð The Socialist International eða The Second International en þau voru arftaki The International en þau samtök höfðu verið lögð niður 1876. Á ráðstefnunni var samþykkt að umræddra atburða í Bandaríkjunum yrði minnst 1. maí árið eftir með mótmælum um allan heim og þar að auki yrði krafist 8 stunda vinnudags. Var það raunar að tillögu fulltrúa bandarísku verkalýðshreyfingarinnar að þessi dagsetning var valin og þótti við hæfi að halda uppi kröfunni um 8 klukkustunda vinnudag á þessum degi og minnast atburðanna í Chicago um leið, því þótt þeir hefðu átt sér stað 4. maí hófst atburðarásin sem endaði með blóðbaðinu á Haymarket-torgi með verkföllunum 1. maí.

Árið 1891 komu samtökin saman á ný og þar sem vel þótti hafa gengið að halda 1. maí samkomur svo víða um heim var samþykkt að 1. maí yrði framvegis alþjóðlegur baráttudagur verkafólks. Það átti þó einnig sinn þátt í því að þessi dagur var valinn að hann hafði í gengum söguna verið hátíðisdagur í mörgum Evrópulöndum þar sem komu vorsins var fagnað.

Þrátt fyrir þennan mikla þátt Bandaríkjanna í að 1. maí varð alþjóðlegur dagur verkafólks hefur dagurinn aldrei verið haldinn hátíðlegur þar í landi. Eins og áður segir er dagur verkafólks í landinu fyrsti mánudagurinn í september. Áður en atburðirnir á Haymarket-torgi gerðust hafði þeirri hugmynd verið varpað fram að gera þennan dag að degi verkafólks í landinu en hann var lögfestur sem frídagur 1894. Því hefur verið haldið fram að eftir umrædda atburði hafi verið markvisst séð til þess af yfirvöldum í Bandaríkjunum að dagur verkafólks yrði ekki tengdur Haymarket-torgi, með því að hafa hann í september en ekki maí. Það verður þó ekki skorið úr um það hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Díana prinsessa fór huldu höfði í drag á djamminu með Freddie Mercury

Díana prinsessa fór huldu höfði í drag á djamminu með Freddie Mercury
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þurfti að vera heima til að sinna heimanáminu – Á meðan dó öll fjölskylda hans

Þurfti að vera heima til að sinna heimanáminu – Á meðan dó öll fjölskylda hans
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tók til sinna eigin ráða eftir að dóttir hennar var myrt og það átti eftir að kosta hana lífið – Ævintýraleg barátta syrgjandi móður sem bauð glæpagengi birginn

Tók til sinna eigin ráða eftir að dóttir hennar var myrt og það átti eftir að kosta hana lífið – Ævintýraleg barátta syrgjandi móður sem bauð glæpagengi birginn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Upplifði óbærilegan sársauka fyrir andlátið – „Það braut hana niður“

Upplifði óbærilegan sársauka fyrir andlátið – „Það braut hana niður“