Um helgina fóru af stað óvæntir orðrómar um að David Raya, markvörður Brentford, gæti verið á leið til Arsenal. Thomas Frank stjóri Brentford hefur tjáð sig um framtíð leikmannsins.
Raya hefur undanfarið verið orðaður við Bayern Munchen en í gær var greint frá því að Arsenal vildi fá Spánverjann í samkeppni við Aaron Ramsdale.
„Ég skil það að hann vilji fara ef gott tækifæri býðst,“ segir Frank.
„David er leikmaður Brentford eins og er og mér hefur ekki verið tjáð annað. En það er opið leyndarmál að við erum til í að selja hann fyrir rétta upphæð.“
Brentford er talið vilja 40 milljónir punda fyrir Raya og telur Frank það sanngjarnt.
„Ég væri mjög til í að fá 40 milljónir punda. Hann var einn af fjórum bestu markvörðum deildarinnar á síðustu leiktíð. Declan Rice kostaði 105 milljónir punda og það er verið að tala um meira en 100 milljónir fyrir Harry Kane. Hann er markvörður á besta aldri svo það er sanngjarnt. Það er samt gott að ég sé ekki um þessar viðræður.“