Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Leikarinn Halldór Gylfason er mættur til Sviss til að styðja Stelpurnar okkar á EM. Undirritaður hitti á hann á Fan Zone í Bern, þar sem íslenska liðið mætir heimakonum í kvöld.
„Tilfinningin er góð. Ég held við vinnum þetta 1-0, skorum úr föstu leikatriði á 17. mínútu, pökkum í vörn og klárum þetta,“ sagði Halldór léttur í bragði.
Hann var einnig mættur á leikinn við Finna í 1. umferð riðlakeppninnar, en hann tapaðist 1-0.
„Þetta er búið að vera ógeðslega gaman. Ég viðurkenni að það væri búinn að vera annar bragur á þessu ef við hefðum allavega fengið stig, en þetta er búið að vera góður tími.“
Það verða um 2 þúsund Íslendingar á Wankdorf-leikvanginum í Bern í kvöld. Uppselt er á leikvanginn, sem tekur um 30 þúsund manns í sæti á þessum leik.
„Við verðum eins og krækiber í helvíti en krækiber eru góð,“ sagði Halldór.
Nánar í spilaranum.