Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Veðbankar hafa ekkert svakalega mikla trú á íslenska kvennalandsliðinu eftir dapra byrjun á EM, 1-0 tap gegn Finnlandi.
Vonir Íslands um að fara upp úr riðli sínum urðu eðlilega veikari með tapinu, enda Finnland slakasta lið riðilsins á pappír.
En Stelpurnar okkar geta rétt úr kútnum gegn gestgjafaþjóðinni, Sviss, annað kvöld. Þær töpuðu einnig í fyrstu umferð, 1-2 gegn Noregi.
Veðbankar telja að Sviss vinni leikinn á morgun og á Lengjunni er stuðull á sigur heimamanna 1,87. Hann er 3,48 á sigur Íslands og loks 3,06 á jafntefli.
Ísland má í raun ekki tapa leiknum á morgun og draumurinn um að fara í 8-liða úrslit verður sennilega úti ef það gerist.