Valsmenn hafa ekki tekið ákvörðun um það hvort félagið muni leggja fram annað tilboð í Valdimar Þór Ingimundarson, leikmann Víkings. Síðasta tilboði var hafnað í gær.
Í síðustu viku greindi 433.is frá því að Valdimar hefði áhuga á að yfirgefa Víking og ganga í raðir Vals, sem vildi sömuleiðis fá hann.
„Við höfðum heyrt af óánægju af hans hálfu. Glugginn er opinn núna svo við höfum gert tilboð en þeim hefur verið hafnað. Þannig stendur þetta eins og er,“ sagði Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, við 433.is í dag.
Samkvæmt heimildum vildi Víkingur fá leikmann á móti, eigi félagið að sleppa Valdimari. Sá leikmaður ku vera Jónatan Ingi Jónsson.
„Ég get ekki tjáð mig um ákveðna leikmenn. Ekki annað en það að tilboðunum var hafnað og við erum ánægðir með okkar hóp. Við erum ánægðir með okkar hóp og viljum ekki missa leikmenn frá okkur sem eru ánægðir hér.
Tilboðunum hefur hingað til verið hafnað, væntanlega á þeim forsendum að hann sé ekki til sölu en það er væntanlega þannig hjá þeim eins og okkur og öðrum, að það geti alltaf breyst eftir afstöðu leikmanna og um hvaða upphæð er að ræða.“
Björn og hans stjórn hafa ekki tekið ákvörðun um það hvort gera skuli annað tilboð í Valdimar.
„Það er ekkert sem liggur fyrir að svo stöddu. Ég fékk svör við því síðasta í gær. Við erum mjög ánægðir með okkar hóp en ef réttu leikmennirnir bjóðast skoðum við það. Valdimar er þannig leikmaður að ef það er möguleiki á því gerum við allt sem við getum gert til að láta það gerast.“