Það eru töluvert meiri líkur á því í dag að Richarlison verði hluti af brasilíska landsliðshópnum sem spilar á HM 2026 í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.
Frá þessu greina margir miðlar og þar á meðal brasilískir en Richarlison er leikmaður Tottenham á Englandi.
Richarlison fagnaði sigri með Tottenham í Evrópudeildinni í vikunni en hann kom við sögu í 1-0 sigri á Manchester United.
Sóknarmaðurinn hefur ekki náð að sýna sitt rétta andlit með Tottenham síðustu mánuði en á heldur betur möguleika á að komast á HM vegna komu Carlo Ancelotti.
Ancelotti er stjóri Real Madrid í dag en hann mun taka við brasilíska landsliðinu eftir tímabilið og stýra því á stórmótinu á næsta ári.
Ancelotti er sagður vera mikill aðdáandi Richarlison en þeir þekkjast ágætlega eftir að hafa unnið saman hjá Everton á sínum tíma.