Howard Webb, fyrrum dómari í ensku úrvalsdeildinni, hefur tjáð sig um atvik sem gerðist í leik Tottenham og Manchester United árið 2009 er þessi lið áttust við á Old Trafford.
Tottenham komst í stöðuna 2-0 í þessum leik áður en Webb ákvað að dæma vítaspyrnu á Heurelho Gomes, markvörð Tottenham, fyrir brot á Michael Carrick.
Webb ræddi þetta augnablik í samtali við Athletic en hann áttaði sig um leið að mistök hefðu verið gerð og að vítaspyrnudómurinn væri rangur.
Á þessum tíma gátu dómarar hins vegar ekki notast við VAR og steig Cristiano Ronaldo á punktinn og skoraði. Man Utd vann leikinn að lokum 5-2.
Webb viðurkennir að hann hafi vonast eftir því að Ronaldo myndi klúðra spyrnunni svo vítaspyrnan myndi ekki hafa áhrif á gang mála.
,,Það sem ég hugsa fyrst um er í leik þar sem ég vissi að ég hefði gert mistök. Þetta var leikur Tottenham og Manchester United á Old Trafford 2009,“ sagði Webb.
,,Ég sá Michael Carrick ná boltanum áður en markvörðurinn virtist brjóta á honum. Þetta virkaði sem auðvelt víti að dæma. Ég bjóst við þessum venjulegu kvörtunum en ekki brjálæðinu sem fylgdi.“
,,Það var augljóst um leið að ég hefði gert mistök. Það var eitthvað meira þarna en venjulega. Ég þurfti að standa með ákvörðuninni og minni tilfinningu. Ég vonaðist bara eftir því að Ronaldo myndi klúðra vítinu en hann gerði það ekki.“