
Jamie Carragher er allt annað en sáttur við Mohamed Salah, leikmann Liverpool, og heldur áfram að skjóta á hann.
Carragher hélt um átta mínútna einræðu í kjölfar umdeilds viðtals Salah eftir 3-3 jafntefli Liverpool gegn Leeds um helgina.
Þar sakaði Egyptinn félagið og Arne Slot um að hafa hent honum fyrir rútuna og sagðist ekki lengur eiga neitt samband við stjórann.
Carragher sagði viðtalið skammarlegt og sakaði Salah og umboðsmann hans um að hafa skipulagt það til að valda félaginu sem mestum skaða.
Hann benti jafnframt á slakt vinnuframlag leikmannsins varnarlega og minnti á misheppnaða dvöl hans hjá Chelsea og vonbrigði með landsliði Egyptalands, svo dæmi séu nefnd.
Salah birti svo mynd af sér í líkamsræktarsal Liverpool í dag, þar sem hann er utan hóps í leiknum gegn Inter í Meistaradeildinni í kvöld.
Carragher endurbirti mynd Salah og skrifaði við hana: „Held að ég hafi ekki vonast svona mikið eftir sigri Liverpool í langan tíma.“
I’m not sure I’ve wanted Liverpool to win a game more than tonight for a long time!
Come you mighty 🔴🤞 https://t.co/V0vhBwFW2i— Jamie Carragher (@Carra23) December 9, 2025