
Jamie Carragher hefur brugðist við gagnrýni blaðamannsins Hugh Woozencroft, sem sagði hann hafa verið með óþarfa skot á Mohamed Salah í umfjöllun sinni á Sky Sports.
Carragher hélt um átta mínútna einræðu í kjölfar umdeilds viðtals Salah eftir 3-3 jafntefli Liverpool gegn Leeds um helgina. Þar sakaði Egyptinn félagið og Arne Slot um að hafa hent honum fyrir rútuna og sagðist ekki lengur eiga neitt samband við stjórann.
Carragher sagði viðtalið skammarlegt og sakaði Salah og umboðsmann hans um að hafa skipulagt það til að valda félaginu sem mestum skaða. Hann benti jafnframt á slakt vinnuframlag leikmannsins varnarlega og minnti á misheppnaða dvöl hans hjá Chelsea og vonbrigði með landsliði Egyptalands, svo dæmi séu nefnd.
Woozencroft gagnrýndi Carragher á X og sagði hann ganga of langt.
„Þú og aðrir hafið gjörsamlega misskilið það sem ég var að meina. Þetta voru engin skot, ég var að benda á að sama hversu góður þú ert þurfa allir að leggjast á eitt og gera það sem er best fyrir félagið,“ svaraði Carragher þá.
Salah er ekki í leikmannahópi Liverpool gegn Inter í Meistaradeildinni í kvöld. Hugsanlegt er að hann hafi spilað sinn síðasta leik fyrir félagið.