
Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari reynir markvisst að nota fleiri leikmenn í sínum leikjum en tilfellið var hjá gullkynslóðinni, til að gera liðið sjálfbærara til lengri tíma.
Arnar var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun og fór yfir landsliðsárið. Benti hann á að hann hafi notað 28 leikmenn í undankeppninni fyrir HM.
„Við erum minnugir þess sem gullaldarliðið gerði, 2016-18 var kannski 14-15 manna kjarni, þannig að við erum að stækka hópinn verulega,“ sagði Arnar.
„Ég held að það sé bara nauðsynlegt. Ég er búinn að horfa mikið á gullaldarliðið síðustu vikur, sem hefur verið hrikalega gaman. Allir þessir leikir á EM og HM, gaman að sjá hvernig við vorum að spila og reyna að læra eitthvað af því sem við gerðum vel.
En það sem sló mig, eftir að hafa horft á þessa leiki, var að þessi tími var mjög stuttur. Hann var bara í nokkur ár, sem þýddi það að við vorum ekki nægilega tilbúnir þegar gullkynslóðin hvarf af vettvangi. Næsta áskorun fyrir okkur er að gera liðið meira sustainable.“