
Breiðablik heimsækir franska liðið Strasbourg annað kvöld í lokaleik sínum í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar. Blikar eiga enn möguleika á að fara áfram í útsláttarkeppnina en það þarf allt að ganga upp.
Liðið er með fimm stig fyrir lokaumferðina eftir lífsnauðsynlegan sigur á Shamrock Rovers á Laugardalsvelli í síðustu viku. Sigur gegn Strasbourg á morgun ætti að duga til að vera í efstu 24 sætunum og fara áfram í útsláttarkeppnina eftir áramót.
Það verður þó ekkert spaug, en Strasbourg er á toppi Sambandsdeildarinnar með 13 stig og í sjöunda sæti í frönsku úrvalsdeildinni. Liðið er systurlið Chelsea og fær reglulega leikmenn þangað.
Veðbankar hafa ekki allt of mikla trú á óvæntum sigri Breiðabliks á morgun, en stuðullinn á Lengjunni er til að mynda 8,74. Hann er 1,17 á sigur Strasbourg en 5,53 á jafntefli.
Leikurinn hefst klukkan 20 annað kvöld.