

John Terry hefur útilokað allan möguleika á yfirvofandi sáttafundi við Rio Ferdinand, en ágreiningur þeirra fyrrverandi liðsfélaga í enska landsliðinu hefur nú staðið í nær tvo áratugi.
Ferdinand sleit samskiptum við Terry eftir að sá síðarnefndi var sakaður um kynþáttaníð í garð bróður hans, Anton Ferdinand, í leik Chelsea og Queens Park Rangers á Loftus Road árið 2011.
Terry var ákærður vegna málsins en síðar sýknaður fyrir dómi og hefur ávallt neitað ásökununum. Enska knattspyrnusambandið (FA) komst þó að annarri niðurstöðu í eigin rannsókn, úrskurðaði hann sekan, setti hann í fjögurra leikja bann og sektaði hann um stóra fjárhæð.

Síðan þá hefur Terry rætt opinberlega um tilraunir sínar til að bæta sambandið, meðal annars sagði hann í fyrra að Ferdinand hefði neitað að tala við sig þegar þeir mættust á strönd í Dubai.
Undanfarið hafa verið vangaveltur um að Terry gæti komið fram í hlaðvarpi Ferdinands, en Rio hefur áður sagt að Terry þyrfti fyrst að ræða við Anton bróður sinn.
Nú hefur Terry endanlega slegið slíkar hugmyndir út af borðinu. Í viðtali í hlaðvarpi Reece Mennie sagði hann.
„Það mun aldrei gerast. Hann talar ekki einu sinni við mig. Ég reyndi að tala við Rio fyrir um fimm árum síðan en hann hafði engan áhuga. Á endanum hættir maður að reyna, þetta er gamalt mál og maður heldur áfram með lífið,“ sagði Terry.