

Bruno Fernandes hefur enn á ný rætt áhuga Al-Hilal á að fá hann til Sádi-Arabíu og viðurkennt að tilboðið hafi verið freistandi, þrátt fyrir að hann hafi ákveðið að vera áfram hjá Manchester United.
Nú hefur Maisfutebol greint frá nýjum ummælum 31 árs landsliðsmanns Portúgals í viðtali við Canal 11.
Fernandes staðfesti að forseti Al-Hilal, Nawaf bin Saad, hafi haft beint samband við hann, auk þess sem Rúben Neves sendi honum skilaboð og reyndi að sannfæra hann um að ganga til liðs við félagið. João Cancelo og Neves leika báðir með Al-Hilal og vildu fá Fernandes með sér, meðal annars til að spila á HM félagsliða.
„Forseti Al-Hilal hringdi beint í mig. Þetta er áhugi sem hófst þegar Jorge Jesus var þar, hann hafði þegar haft samband við mig árið 2023,“ sagði Fernandes. Hann viðurkenndi að fjárhagslega hafi tilboðið verið mjög sterkt, en peningar hafi aldrei verið helsta ástæðan í ákvörðun hans.
Fernandes gaf þó til kynna að Manchester United hefði verið tilbúið að selja hann til að fjármagna önnur kaup. „Ég fann svolítið fyrir því að ef ég færi, þá væri það ekki stórt vandamál fyrir félagið. Það særir mig og gerir mig dapran, því ég gef alltaf allt fyrir United,“ sagði fyrirliðinn.
„Ég sagði stjórnarmönnum United þetta, þeir þorðu ekki að taka ákvörðun. Ég ákvað að vera áfram, fyrir fjölskylduna en líka því ég elska félagið. Samtalið við stjórann sannfærði mig líka að fara ekki. En frá félaginu fann ég að þeir hugsuðu að það væri ekki svo slæmt ef ég færi. Ég er leikmaður sem þeir geta ekki gagnrýnt, ég var sár. Ég er alltaf klár, ég spila stundum vel og stundum illa. Ég legg mig alltaf fram. Svo sé ég hluti í kringum mig, leikmenn sem eru ekki að leggja sig alla fram fyrir félagið. Þá verð ég sár.“
Fernandes á samning við United til 2027, með möguleika á einu ári til viðbótar, en nýjustu ummæli hans benda til þess að þetta gæti orðið síðasta tímabil hans á Old Trafford.