

Manchester United gerði Bruno Fernandes ljóst síðasta sumar að hann væri lykilmaður í framtíðaráætlunum félagsins eftir að sádiarabíska félagið Al-Hilal lagði fram afar hagstætt tilboð til að fá hann frá Old Trafford. Al-Hilal bauð Fernandes gríðarlega há laun, en engin formleg samskipti áttu sér stað við United og fyrirliðinn hafnaði hugmyndinni.
Manchester Evening News segir forráðamenn United ekki kaupa viðtal sem Bruno, fyrirliði liðsins, veitti í heimalandi sínu Portúgal.
Fernandes ræddi ákvörðunina í viðtali við Manchester Evening News í október og sagði þá bæði knattspyrnustjórann og félagið hafa gert sér grein fyrir mikilvægi hans og viljað halda honum. Nú virðist hann þó hafa sent misvísandi skilaboð í nýlegu viðtali við Canal 11, sjónvarpsrás portúgalska knattspyrnusambandsins.
„Félagið vildi að ég færi, ég hef það í huga mér. Ég sagði stjórnendum þetta, en ég held að þeir hafi ekki haft hugrekki til að taka þá ákvörðun. Ég ákvað að vera áfram,“ sagði Fernandes.
Heimildir innan Manchester United hafna þessum orðum og ítreka að forysta félagsins hafi verið skýr allt sumarið um að Fernandes væri lykilmaður í framtíð liðsins. Þær vísa einnig í ummæli leikmannsins sjálfs í október, þar sem hann sagði félagið deila þeirri sýn Ruben Amorim að hann yrði áfram hjá United.