
Jamie Carragher telur að dagar Enzo Maresca hjá Chelsea gætu verið taldir eftir að Ítalinn lýsti síðustu dögum hjá félaginu sem þeim verstu frá komu sinni á Stamford Bridge.
Maresca sagði eftir 2-0 sigur á Everton að hann og leikmenn hefðu ekki fundið fyrir nægilegum stuðningi, orð sem hann hefur síðan neitað að útskýra frekar.
Í Monday Night Football sagði Carragher að þessi ummæli væru skýr skot á eigendur og yfirstjórn félagsins.
„Ég held ekki að Maresca verði stjóri Chelsea á næsta tímabili. Þegar þú ferð opinberlega gegn eigendum, þá er það stórt vandamál. Ég sé hann ekki vera þarna á næsta tímabili,“ sagði hann.
„Það er ekkert óljóst hverjum hann er að beina þessu að. Hann er að tala um eigendur og stjórnendur.“
Carragher gagnrýndi sérstaklega að Maresca skyldi fara með málið í fjölmiðla í stað þess að leysa það innan veggja félagsins.
„Þegar svona hlutir eru teknir opinberlega, þá er yfirleitt bara ein niðurstaða.“