

Enska landsliðskonan Chloe Kelly hefur sagt opinskátt frá því að hún hafi greinst með skalla (alopecia) á síðasta ári eftir að hafa glímt við alvarlegan kvíða sem varð svo slæmur að hún óttaðist hjartaáfall.
Kelly, sem er 27 ára og varð þjóðþekkt eftir Evrópumótið síðasta sumar, hefur áður rætt andlega erfiðleika sína, sérstaklega undir lok ferils síns hjá Manchester City.
Hún gekk aftur til liðs við Arsenal í janúar og sagði þá að neikvæð hegðun innan City hefði haft gríðarleg áhrif á andlega líðan hennar.
Nú, tæpu ári síðar, segir Kelly að kvíðinn hafi verið svo yfirþyrmandi að hún treysti sér varla út úr húsi.
Í viðtali í Happy Place hlaðvarpi Fearne Cotton lýsti hún því hvernig hún sat ein í myrkri og fann að eitthvað væri alvarlega að. Hún sagðist hafa orðið svo veik af kvíða að hún gat ekki staðið upp af baðherbergisgólfinu vegna uppkasta.
Kelly segir að í miðri baráttunni hafi hárið byrjað að falla af henni. Hún tók eftir blettum og leitaði til læknis hjá enska landsliðinu, sem vísaði henni til sérfræðings. Þar fékk hún greininguna alopecia.
„Þá fór ég að sjá líkamleg áhrif kvíðans, ekki bara andleg,“ sagði Kelly. Hún viðurkennir að þetta hafi verið mjög erfiður tími, þar sem sjálfstraustið hafi laskast og hún hafi jafnvel þurft að fela blettina í sínum fyrsta leik með Arsenal.