
Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, hélt spilunum þétt að sér á blaðamannafundi fyrir leik liðsins gegn Cardiff City í 8-liða úrslitum deildabikarsins, sem fer fram í Wales annað kvöld.
Eftir 2-0 sigur Chelsea á Everton um helgina lýsti Maresca síðustu 48 klukkustundum fyrir leikinn sem þeim verstu síðan hann kom til félagsins og vísaði þar óbeint í skort á stuðningi. Aðspurður í dag vildi Ítalinn hins vegar ekki fara frekar út í málið.
„Ég hef þegar talað um þetta og hef engu við það að bæta. Nú snýst allt um Cardiff. Ég virði skoðanir fólks, en ég hef engu við þetta að bæta. Einbeiting mín er á morgundeginum,“ sagði Maresca við fréttamenn í dag.
Aðspurður um hvort hann væri staðráðinn í að halda áfram sem stjóri Chelsea svaraði hann afdráttarlaust játandi.