
Fyrrverandi eigandi og stjórnarformaður Tottenham, Alan Sugar, hefur hvatt félagið til að skipta út Thomas Frank eftir 3-0 tap gegn Nottingham Forest í úrvalsdeildinni um helgina.
Tapið var enn eitt áfallið fyrir Lundúnaliðið, sem er nú í 11. sæti deildarinnar með aðeins einn sigur í síðustu sjö leikjum. Frammistaðan um helgina var þá alls ekki góð.

Sugar lét í ljós skoðun sína á X og sagði að Tottenham ætti að ráða Jurgen Klopp í janúar. Þjóðverjinn hefur að vísu sagt að hann muni aldrei stýra öðru liði á Englandi en Liverpool.
„Með alla peningana sem Lewis-fjölskyldan á yrði það sigur að ráða Jurgen Klopp í janúar. Setja mun meiri pening í leikmenn og fá stórkostlegan stjóra,“ skrifaði Sugar.
Klopp starfar í dag hjá Red Bull samsteypunni, en hann hætti með Liverpool vorið 2024.