
Ruben Amorim, stjóri Manchester United, hefur brugðist við harðri gagnrýni frá fyrrverandi leikmönnum félagsins, þar á meðal Paul Scholes sem sagði hann ekki rétta manninn í starfið.
Amorim ræddi málið á blaðamannafundi fyrir leik United gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. United er í áttunda sæti en getur komið sér í það fimmta í kvöld.
„Staðreyndin er sú að stigastöfnun er undir væntingum, við ættum að hafa fleiri stig,“ sagði Portúgalinn.
Amorim sagðist skilja gagnrýni fyrrum leikmanna, sem upplifðu mun blómlegri tíma hjá félaginu.
„Þeir sjá Manchester United eins og félagið var þegar þeir voru hér, þeir eiga erfitt með að sjá stöðuna í dag.“