

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur dregið í efa gæði leikmanna sem hafa komið upp úr akademíu félagsins og sent skýr skilaboð til stuðningsmanna með því að gagnrýna þrjá unga leikmenn.
Manchester United hefur lengi státað af sterkri akademíu, þar sem leikmenn á borð við Paul Scholes, Gary Neville og Marcus Rashford hafa risið upp og náð árangri með aðalliðinu. Þrátt fyrir það segir Amorim að hann láti ekki tilfinningar eða fortíðina ráða ákvörðunum sínum.
Hann nefndi sérstaklega Toby Collyer (21 árs), Harry Amass (18) og Chido Obi (18), sem allir hafa átt erfitt uppdráttar á þessu tímabili.
Collyer var talinn líklegur til að taka sæti Casemiro eftir góðar framfarir á síðasta tímabili, en hefur aðeins byrjað þrjá leiki með West Bromwich í Championship-deildinni. Vinstri bakvörðurinn Amass glímir við erfiðar aðstæður hjá Sheffield Wednesday, á meðan sóknarmaðurinn Obi hefur staðnað í U21 árs liði hjá United.
„Collyer spilaði með Manchester United og er úr akademíunni. Hann fór svo til West Bromwich og er ekki að spila þar,“ sagði Amorim þegar hann réttlætti ákvörðun sína að halda Kobbie Mainoo til hliðar.
„Þetta snýst ekki bara um hvaðan þú kemur, heldur stöðuna hverju sinni. Amass á í vandræðum í Championship og Chido er ekki einu sinni fastur í byrjunarliðinu hjá U21. Þessir leikmenn fengu allir tækifæri þegar margir kölluðu eftir því að reka stjórann.“