

Stefán Pálsson, sagnfræðingur og knattspyrnuáhugamaður með meiru, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Stefán er mikill aðdáandi íslenskrar knattspyrnu en telur vert að hafa í huga að umhvefið sem er verið að skapa sé ekki sjálfbært. Bendir hann á þegar lið eru farin að treysta á peninga úr Evrópukeppni til að mynda.
„Mesta bölvunin er þessi möguleiki á að smá velgengni þýði Evrópuskrið og risa-ávísun í póstinum. Þetta ýtir undir taugaveiklunarákvarðanir, þetta er hægt að nota sem réttlætingu á alls konar skyndireddingum og fjáraustri sem endar bara á því að skrúfa upp launin og kostnaðinn hjá öllum félögum,“ segir hann.
„Við verðum að horfast í augu við að eins og manni finnst íslenskur fótbolti skemmtilegur er þetta svo langt frá því að vera sjálfbært batterí. Þetta meikar ekki nokkurn sens og maður er alltaf að bíða eftir að fullorðna fólkið í herberginu komi og segi að þetta sé tóm vitleysa. Það er ekkert vit í því að það séu sjö útlenskir atvinnumenn að spila fótboltaleik með 900 áhorfendum, þar af 300 sem borguðu sig inn.“
Þátturinn í heild er í spilaranum.