

Mohamed Salah birti myndband á samfélagsmiðlinum Instagram sem sýnir hlýjar móttökur sem hann fékk frá stuðningsmönnum Liverpool eftir 2-0 sigur liðsins á Brighton.
Egyptinn sneri aftur í lið Liverpool í leiknum eftir mikla umræðu undanfarnar vikur um stöðu hans hjá félaginu.
Að leik loknum söng Anfield nafn Salah hátt og snjallt, á meðan hann klappaði stuðningsmönnum á Kopp-stúkunni fyrir stuðninginn.
Myndbandið sem Salah deildi sýnir augnablikið þar sem stuðningsmenn liðsins hylla hann, og má túlka færsluna sem skýrt merki um að samband leikmannsins og stuðningsmanna Liverpool sé áfram sterkt þrátt fyrir umrót undanfarinna daga.
Sumir túlka myndbandið þó þannig að þarna sé Salah að undirbúa sig að kveðja Liverpool og gæti mögulega hafa leikið sinn síðasta leik.