

Varnarmaðurinn Axel Óskar Andrésson hefur skrifað undir nýjan samning við Aftureldingu sem gildir í tvö ár eða út tímabilið 2027.
Axel Óskar byrjaði ungur í yngri flokkum Aftureldingar og spilaði 16 ára sitt fyrsta tímabil í meistaraflokki í Mosfellsbæ áður en hann gekk til liðs við Reading á Englandi.
Hann tekur slaginn með uppeldisfélaginu eftir fall úr Bestu deildinni.
Axel spilaði síðar í Noregi, Lettlandi og Svíþjóð áður en hann kom til Íslands árið 2024 og gekk í raðir KR. Síðastliðinn vetur kom Axel heim í Aftureldingu og spilaði hann stórt hlutverk með liðinu í Bestu deildinni síðastliðið sumar.