
Samkvæmt Daily Mail hefur Murillo, varnarmaður Nottingham Forest vakið áhuga bæði Chelsea og Real Madrid og er leikmaðurinn sjálfur sagður opinn fyrir félagsskiptum eftir tímabilið.
Þessi 23 ára gamli Brasilíumaður kom frá Corinthians í ágúst 2023 og hefur á skömmum tíma orðið einn af lykilmönnum Forest í úrvalsdeildinni. Frammistaðan hefur einnig skilað honum kalli í brasilíska landsliðið.
Murillo framlengdi samning sinn í janúar og er Forest því í sterkri samningsstöðu. Félög sem vilja tryggja sér þjónustu hans þurfa að bjóða yfir 55 milljónir punda, sem væri sölumet hjá Forest og hærra en upphæðin sem Newcastle greiddi fyrir Anthony Elanga.
Chelsea og Real Madrid munu fylgjast náið með gangi mála.