
Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari karlaliðs Breiðabliks, er brattur og gerir sér vonir um að liðið vinni sinn fyrsta leik í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar gegn Shamrock Rovers á morgun.
Blikar eru með tvö stig í keppninni og þurfa nauðsynlega á sigri að halda gegn Írunum til að eiga von um að komast áfram í útsláttarkeppnina fyrir lokaumferðina.
„Þetta verður skemmtilegt verkefni og við erum klárlega hungraðir í sigur og að byggja ofan á frammistöðuna í síðasta leik,“ sagði Ólafur við 433.is í Laugardalnum, þar sem leikurinn fer fram, í dag.
Blikar náðu í ansi sterkt stig í síðasta leik gegn afar öflugu liði Samsunspor frá Tyrklandi.
„Við framkvæmdum leikinn mjög vel heilt yfir. Svo er alltaf hægt að gera betur og við vinnum í þeim þáttum líka. Þetta er nýtt verkefni og verður öðruvísi leikur get ég trúað en það er klárlega eitthvað sem við getum byggt ofan á.“
Ólafur tók við Blikum fyrir að verða tveimur mánuðum og er afar sáttur í Kópavoginum það sem af er.
„Mér líður frábærlega. Þetta hefur verið alveg ótrúlega skemmtilegt. Fólkið er frábært og þetta er frábær hópur af leikmönnum. Það er allt flott í kringum félagið og mér hefur verið tekið alveg ótrúlega vel.“
Ítarlegra viðtal er í spilaranum.