
Cristiano Ronaldo hefði getað endað á Stamford Bridge árið 2003 og það fyrir minna en 3 milljónir punda ef Chelsea hefði hlustað á fyrrverandi leikmanninn og umboðsmanninn Barry Silkman. Þetta kemur fram í viðtali The Telegraph við hann.
Silkman segir að hann hafi náð samkomulagi við Jorge Mendes um að koma Ronaldo til Chelsea, en félagið hafnaði tilboðinu. Stuttu síðar mætti Ronaldo Manchester United í æfingaleik, heillaði alla og United borgaði 10 milljónir punda fyrir hann strax eftir leikinn.
„Ég var búinn að klára dílinn, en Chelsea sagði nei. United keypti hann eftir að hann rústaði þeim í æfingaleiknum og Jorge fékk sitt. Ég var gjörsamlega miður mín,“ segir Silkman.
Ronaldo var þarna hjá Sporting í heimalandinu, Portúgal. Óþarft er að fara yfir afrek hans frá því hann var keyptur til United, enda um einn besta leikmann sögunnar að ræða.