
„Þetta verður skemmtilegur leikur, skemmtilegt lið og tækifæri á að sækja til sigurs,“ segir Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks fyrir einvígið við Shamrock Rovers í Sambandsdeildinni á Laugardalsvelli á morgun.
Blikar náðu sterku jafntefli gegn Samsunspor frá Tyrklandi í síðasta leik og taka frammistöðuna þar með sér inn í einvígið á morgun. „Við vorum ekki langt frá því að sækja þrjú stig þar og það er ýmislegt sem við tökum með okkur þaðan sóknar- og varnarlega.“
Breiðablik heldur enn í vonina um að komast í útsláttarkeppnina en til þess þarf að vinnast sigur á Írunum á morgun. „Ef við vinnum leikinn á morgun er bara ótrúlega spennandi vika framundan í Frakklandi. Það er risagulrót og það sem við stefnum á.“
Höskuldur kann vel við það að spila keppnisleiki svo langt inn í árið, en það gerðu Blikar líka þegar þeir komust í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar haustið 2023.
„Maður kann að meta þetta hreinlega. Þetta er pínu erfitt upp á að hafa andleg og líkamleg þolgæði í þetta. En ég tek þetta allan daginn fram yfir að vera kominn inn í eitthvað undirbúningstímabil. Þetta er bara veisla.“
Ítarlegra viðtal er í spilaranum.