
Breiðablik spilar síðasta heimaleik sinn í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar annað kvöld þegar Shamrock Rovers kemur í heimsókn.
Blikar eru með tvö stig eftir fjóra leiki og þurfa sigur í síðustu tveimur leikjum sínum til að geta komist áfram í útsláttarkeppnina, gegn Shamrock og svo Strasbourg í erfiðum útileik í Frakklandi í lokaumferðinni.
Shamrock er aðeins með eitt stig og er Breiðabliki gefnar nokkuð góðar líkur á að sigra á morgun, miðað við veðbanka. Á Lengjunni er stuðull á sigur þeirra 1,79. Til samanburðar er hann 3,43 á Shamrock og 3,35 á jafntefli.
Leikurinn hefst klukkan 17:45 á Laugardalsvelli annað kvöld.