

Það vakti athygli fyrir helgi þegar Grindvíkingar tilkynntu að félagið hefði klófest þá Damir Muminovic frá Breiðabliki og markvörðinn Hjörvar Daði Arnarson frá ÍBV. Töluverður áhugi var á fyrrnefnda leikmanninum, enda stórt nafn í íslenska boltanum.
Damir er að renna út af samningi hjá Breiðabliki, hvar hann hefur leikið undanfarin ár við afar góðan orðstýr. Varð hann Íslandsmeistari með liðinu 2022 og í fyrra. Hann gerir tveggja ára samning við Grindavík, sem endaði í tíunda sæti Lengjudeildarinnar á síðustu leiktíð.
Það var þó áhugi víðar, bæði úr Bestu deildinni og Lengjudeildinni. Í hlaðvarpinu Dr. Football kemur fram að Stjarnan og nýliðar Keflavíkur hafi sýnt h0num áhuga úr deild þeirra bestu. Þá vildu metnaðarfullir Njarðvíkingar, sem höfnuðu í 2. sæti Lengjudeildarinnar í sumar en duttu út í umspilinu, víst einnig fá hann.
Að lokum höfðu Grindvíkingar þó vinninginn og samkvæmt Kristjáni Óla Sigurðssyni, sparkspekingi Þungavigtarinnar, fær hann vel greitt fyrir störf sín þar, eða 900 þúsund krónur á mánuði.
Gamli góði 900.000 kallinn í íslensku B deildinni. #HeimavinnaHöfðingjans pic.twitter.com/VDrqM8q2w1
— Kristján Óli Sigurðsson (@kristjanoli) November 28, 2025