

Magnús Már Einarsson, þjálfari meistaraflokks karla, og Enes Cogic, Aðstoðarþjálfari hafa framlengt samninga sína við Aftureldingu út tímabilið 2028.
Liðið var í fyrsta sinn í efstu deild í sumar en féll úr Bestu deildinni.
Maggi og Enes tóku við þjálfun Aftureldingar árið 2020 og undir þeirra stjórn hefur liðið bætt árangur sinn reglulega undanfarin ár. Í fyrra komst Afturelding í fyrsta skipti í sögunni upp í Bestu deildina með sigri á Keflavík í úrslitaleik á Laugardalsvelli. Afturelding fékk 27 stig í Bestu deildinni í ár en féll niður um deild eftir hörku baráttu fram í lokaumferð.
Gunnar Ingi Garðarsson (styrktarþjálfari), Þórður Ingason (markvarðarþjálfari) og Garðar Guðnason (sjúkraþjálfari) hafa einnig framlengt samninga sína
,,Það er mikil ánægja hjá meistaraflokksráði karla með nýja samninga við allt þjálarateymið. Það var einhugur í hópnum með að framlengja við allt teymið enda hefur liðið tekið miklum framförum á undanförnum árum. Við treystum Magga og teyminu fullkomlega til að taka liðið aftur upp í deild þeirra Bestu,” segir Gísli Elvar Halldórsson, formaður meistaraflokksráðs karla.
,,Það hafa verið forréttindi að þjálfa meistaraflokk hjá uppeldisfélaginu undanfarin ár og ég er spenntur fyrir því að halda því áfram. Afturelding hefur tekið stór skref fram á við undanfarin ár og að mínu mati getur félagið farið ennþá hærra á næstu árum. Leikmenn hafa bætt sig mikið undanfarin ár og hafa alla burði til að taka ennþá stærri skref fram á við. Félagar mínir í þjálfarateyminu hafa unnið magnaða vinnu og það er mikið fagnaðarefni að þeir séu allir klárir í slaginn áfram með Aftureldingu. Stjórn og sjálfboðaliðar hafa unnið ómetanlegt starf undanfarin ár og stuðningsmenn Aftureldingar hafa verið stórkostlegir á leikjum liðsins. Saman höfum við búið til margar frábærar minningar og trúin er að við getum náð að búa til fleiri geggjuð augnablik saman. Við munum læra af því sem við hefðum getað gert betur í ár og mæta með öflugt lið til leiks næsta sumar þar sem markmiðið er að komast beint aftur upp í Bestu deildina. Hlakka til að sjá ykkur á vellinum. Áfram Afturelding,” sagði Maggi eftir undirskrift.