

Fyrrverandi landsliðs og Manchester United varnarmaðurinn Rio Ferdinand hefur útskýrt af hverju hann ákvað að flytja frá Bretlandi til Dubai og gagnrýnir þar um leið ríkisstjórnina fyrir skattastefnu sína.
Ferdinand, 46 ára, flutti til Sameinuðu arabísku furstadæmanna í ágúst ásamt eiginkonu sinni Kate Ferdinand og börnum þeirra tveimur, Cree (4) og Shae (2). Hann á einnig þrjú eldri börn úr fyrra hjónabandi, en eiginkona hans Rebecca Ellison lést úr brjóstakrabbameini árið 2015.

Fjölskyldan hefur sest að í glæsilegu heimili í Dubai sem meðal annars státar af stórum útisundlaugargarði. Samkvæmt breskum fjölmiðlum er parið metið á um 57 milljónir punda og gæti flutningurinn reynst þeim fjárhagslega hagstæður.
Fjöldinn allur af ríku fólki er farið að flýja Bretland og margir velja Dubai sem áfangastað sinn.
Í viðtali á LBC útvarpsstöðinni sagði Ferdinand að ákvörðunin hefði verið mikilvæg fyrir lífsgæði fjölskyldunnar en jafnframt svar við óánægju hans með nýja ríkisstjórn Keirs Starmer og hækkanir á sköttum sem innleiddar voru í fyrra.
„Ef heilbrigðiskerfið væri að virka frábærlega og allt væri í lagi þá myndu flestir ekki kvarta yfir að greiða skatta,“ sagði Ferdinand.

„En þegar maður sér kerfi sem eru að hrynja, þá spyr maður sig. Hvert er peningurinn að fara og er hann að gagnast fólkinu sem býr hér? Margir vita svarið.“
Hann segir að lífið í Dubai hafi strax haft jákvæð áhrif.
„Ég sé fjölskylduna miklu meira og við eigum meiri gæðastundir saman. Það hefur gert mér ótrúlega gott,“ sagði hann.
„Ég elska England og er mjög þjóðræknislega sinnaður, en þetta er nýr kafli í lífinu. Hér í Dubai finn ég að fjölskyldan er metin og lífstíllinn hentar börnunum mjög vel. Öryggi, veður og orka umhverfisins, þetta er einfaldlega betra fyrir okkur núna.“