
Efnilegi miðjumaðurinn Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir er gengin í raðir Vals frá Þór/KA.
Þrátt fyrir ungan aldur hefr Kimberley Dóra verið lykilmaður í liði Akureyringa og tekur hún nú skrefið til Vals.
Valur olli miklum vonbrigðum og hafnaði í sjötta sæti Bestu deildarinnar, en ætlar sér væntanlega betri árangur á næstu leiktíð.
Tilkynning Vals
Valur hefur gengið frá samningi við Kimberley Dóru Hjálmarsdóttur sem kemur til félagsins frá Þór/KA. Samningurinn er til tveggja ára.
Þrátt fyrir að vera aðeins tvítug hefur Kimberley þegar fest sig í sessi sem einn kraftmesti miðjumaður Bestu deildarinnar.
Kimberley Dóra hefur leikið 18 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands – U19, U18, U17 og U16 – og bætti við sig sínum 19. landsleik fyrir U23 landsliðið núna í júní þegar hún lék gegn Skotlandi.
Gareth Owen, tæknilegur ráðgjafi Vals: „Kimberley er einstaklega hæfileikaríkur leikmaður sem hefur þegar sýnt þroska langt umfram aldur. Hún býr yfir frábærum leikskilningi, varnargreind og getu til að stjórna miðjunni – eiginleikum sem passa fullkomlega við okkar leikstíl og stefnu. Við höfum fylgst náið með framþróun hennar og hún hefur stöðugt heillað okkur með yfirvegun, stöðugleika og forystu á vellinum.
Við trúum því að Kimberley hafi mikið fram að færa og muni blómstra í okkar umhverfi – við hlökkum til að sjá hana spila í rauða búningnum.“