
Jamie Carragher segir ákvörðun Arne Slot í 4-1 tapinu gegn PSV Eindhoven í Meistaradeildinni í gær vera brottrekstrarsök.
Liverpool hefur verið í tómu tjóni undanfarið og er komið niður í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Carragher, sem var í stúdíói CBS Sports í gær, gagnrýndi harkalega ákvörðun Slot að halda áfram að treysta á Ibrahima Konate.
„Það er brottrekstrarsök að velja hann aftur og aftur, ég er búinn að fá nóg,“ sagði Carragher.
Þrýstingurinn á Slot fer vaxandi eftir þrjú töp í röð og slæma byrjun á tímabilinu. Carragher segir að margir stuðningsmenn muni nú fara að efast um stöðu Hollendingsins.
„Þetta hefur verið svona allt tímabilið. Ég held að margir hugsi í kvöld hvort þetta sé komið gott,“ sagði hann.