
Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands og nú Írlands, er hrifinn af því sem er í gangi hér undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar, þó liðið sé ólíkt því sem hann þjálfaði með stórkostlegum árangri á sínum tíma.
Heimir kom íslenska liðinu á EM 2016 og HM 2018. Hann varð þá þjóðhetja í Írlandi á dögunum þegar hann kom liðinu í umspil um sæti á HM þó svo að verkefnið hafi virkað ómögulegt aðeins nokkrum dögum áður. Vinna þurfti Portúgal heima og Ungverjaland úti, sem tókst.
Íslandi mistókst að komast í umspilið þar sem liðið tapaði 0-2 gegn Úkraínu á sunnudag. Að flestra mati hefur þó verið uppgangur á liðinu undir stjórn Arnars, en Heimir var í viðtali við RÚV spurður út hans skoðun á stöðu mála.
„Ég er rosalega skotinn í hvernig þeir spila því þetta er skemmtilegur fótbolti, öðruvísi fótbolti. En mér finnst ekki nógu mikið kjöt á liðinu og það er ekki hægt að ætlast til þess þegar þú velur alla þessa teknísku stráka að þeir hafi líka hina eiginleikana, sem strákarnir höfðu kannski þegar ég var að þjálfa. Þú getur ekki ætlast til þess að þeir séu jafngrimmir og sterkir, það lið var samsett út frá ákveðnum eiginleikum og þetta út frá öðrum,“ sagði Heimir, en bætti við að hann teldi að framtíðin væri björt.