

Framherjinn Gabriel Jesus hafnar orðrómi um að hann gæti yfirgefið Arsenal í janúarglugganum og segir að hann sé einungis einbeittur að því að berjast fyrir því að komast aftur í liðið eftir langvarandi meiðsli.
Brasilíumaðurinn hefur verið frá keppni í um tíu mánuði eftir krossbandameiðsli í janúar, en er nú nálægt endurkomu.
Þrátt fyrir sögusagnir um áhuga annarra félaga og samkeppni við Viktor Gyökeres og Kai Havertz, segist Jesus ekki hafa hug á að fara frá Arsenal.
„Ég hef aldrei haft samband við neitt annað félag,“ sagði hann.
„Ég hef alltaf sagt að ég vil snúa aftur til Palmeiras einhvern daginn og það er líka þeirra ósk, en nú er ég að einbeita mér að Arsenal. Ég hef verið frá í níu mánuði og er að reyna að vinna mig aftur inn í liðið.“
Jesus kallaði fregnirnar ekkert annað en sögusagnir.