

Viktor Unnar Illugason og Hrafnkell Freyr Ágústsson voru gestir Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni hér á 433.is.
Jóhann Berg Guðmundsson náði þeim magnaða áfanga á dögunum að spila sinn 100. landsleik fyrir Íslands hönd. Hann kom í 0-2 sigri á Aserbaísjan. Viktor og Hrafnkell eru góðir vinir Jóhanns og eru stoltir af sínum manni.
„Að ná 100 landsleikjum er ótrúlegt afrek. Hann þurfti að bíða eftir þessu og eftir að hann var ekki valinn síðast missti fólk kannski trúna á að hann myndi ná þessu. En ég vissi að hann yrði valinn aftur og fengi þennan leik. Hann sýndi það að hann á heima í þessu liði og vel það,“ sagði Viktor.
„Ég tek undir þetta en ég er kannski svolítið svartsýnn að eðlisfari því eftir að hann var ekki valinn síðast og hvernig Arnar talaði í viðtölum hugsaði ég: Er þetta að fara að enda í 99 leikjum? Hann var topp þrír leikmaður í leiknum,“ sagði Hrafnkell.
Eins og þeir benda á var Jóhann ekki í landsliðshóp Arnars í síðasta mánuði, en var hann kominn í byrjunarliðið gegn Aserum og stóð sig afar vel.
Þátturinn í heild er í spilaranum.