
Íslenska karlalandsliðið vann fremur sannfærandi sigur á Aserbaísjan í Bakú í undankeppni HM í kvöld.
Strákarnir okkar stýrðu leiknum í fyrri hálfleik og komust yfir á 20. mínútu þegar Albert Guðmundsson skoraði eftir frábæra sendingu Ísaks Bergmann Jóhannessonar.
Sverrir Ingi Ingason tvöfaldaði forystuna fyrir leikhlé með glæsilegu skallamarki eftir konfekt-fyrirgjöf Jóhanns Berg Guðmundssonar.
Staðan 0-2 í hálfleik og íslenska liðið í afar þægilegum málum. Seinni hálfleikur var þó jafnari en hvorugu liðinu tókst að koma boltanum í netið.
Sigur Íslands staðreynd og nú er ljóst að við fáum úrslitaleik um umspilssæti við Úkraínu í Póllandi á sunnudag.
Mistakist Úkraínu að vinna Frakka í kvöld mun Íslandi duga jafntefli í þeim leik.