
Íslenska karlalandsliðið vann fremur sannfærandi sigur á Aserbaísjan í Bakú í undankeppni HM í kvöld.
Strákarnir okkar stýrðu leiknum í fyrri hálfleik og komust yfir á 20. mínútu þegar Albert Guðmundsson skoraði eftir frábæra sendingu Ísaks Bergmann Jóhannessonar.
Sverrir Ingi Ingason tvöfaldaði forystuna fyrir leikhlé með glæsilegu skallamarki eftir konfekt-fyrirgjöf Jóhanns Berg Guðmundssonar.
Staðan 0-2 í hálfleik og íslenska liðið í afar þægilegum málum. Seinni hálfleikur var þó jafnari en hvorugu liðinu tókst að koma boltanum í netið.
Sigur Íslands staðreynd og nú er ljóst að við fáum úrslitaleik um umspilssæti við Úkraínu í Póllandi á sunnudag.
Mistakist Úkraínu að vinna Frakka í kvöld mun Íslandi duga jafntefli í þeim leik.
Elías Rafn Ólafsson – 6
Róleg vakt hjá Elíasi sem gerði sig þó sekan um slæm mistök seint í leiknum þegar hann gaf boltann á andstæðing, hefði getað endað illa.
Guðlaugur Victor Pálsson – 7
Stóð fyrir sínu í dag.
Sverrir Ingi Ingason – 8
Eins og klettur í öftustu línu og skorar frábært skallamark.
Daníel Leó Grétarsson – 7
Traustur við hlið Sverris að vanda.
Mikael Egill Ellertsson – 7
Ágætis frammistaða hjá Mikael.
Jóhann Berg Guðmundsson (69′) – 8 – Maður leiksins
Steig vart feilspor í sínum 100. landsleik og lagði upp annað markið. Hefði í raun átt að vera með fleiri stoðsendingar miðað við hvernig hann teiknaði boltann á menn inni á teignum oftar í leiknum.
Hákon Arnar Haraldsson – 7
Sóknarleikur Íslands fer að miklu leyti í gegnum Hákon og hann sinnti því hlutverki einkar vel í dag.
Ísak Bergmann Jóhannesson (89′) – 7
Átti þessa stórgóðu sendingu í marki Alberts. Mjög líflegur og gerði vel í að finna fremstu menn almennt.
Kristian Nökkvi Hlynsson (69′) – 6
Kom ekki ýkja mikið úr honum eftir frábæra innkomu í síðasta glugga.
Albert Guðmundsson (90+1′)- 7
Áberandi sem fyrr í sóknarleik Íslands og sýndi einstaklingsgæði sem aðrir hafa ekki. Kom Íslandi yfir í leiknum.
Andri Lucas Guðjohnsen (69′) – 6
Vann mikið að vanda og sinnir mikilvægu hlutverki í fremstu víglínu.
Varamenn
Jón Dagur Þorsteinsson (69′) – 6
Brynjólfur Willumsson (69′) – 6
Daníel Tristan Guðjohnsen (69′) – 6
Aðrir spiluðu of lítið til að fá einkunn