

Antonio Conte, þjálfari Napoli, gæti sagt upp störfum hjá Napoli í dag og mun funda með stjórn félagsins í dag eftir 2-0 tap gegn Bologna á sunnudag.
Meistarar Ítalíu frá síðasta tímabili hafa nú misst toppsætið og hafa tapað fimm leikjum í öllum keppnum á tímabilinu. Liðið hefur ekki skorað í þremur leikjum í röð.
Samkvæmt blaðamanninum Matteo Moretto mun Conte eiga samtal við stjórn Napoli þar sem staða hans fer versnandi.
Eftir leikinn gagnrýndi Conte leikmenn sína harðlega. „Ef þú tapar fimm leikjum þá er eitthvað að. Ég vil ekki fylgja dauðum líkama. Það vantar hjarta, ákafa og sameiginlega hugsun. Ég sé leikmenn hugsa meira um sín eigin vandamál en liðið,“ sagði Conte.
Hann bætti við að Napoli virðist enn lifa á sigri síðasta tímabils: „Við höfum ekki sömu orku og í fyrra. Kannski erum við of ánægðir með það sem gerðist áður. Ég hef ekki náð að breyta þessu á fjórum mánuðum, það þýðir að ég er ekki að gera nóg eða einhver vill ekki hlusta.“
Þetta er í annað sinn á fáum vikum sem Conte gagnrýnir félagið opinberlega, eftir að hafa kallað sumargluggann mistök eftir 6-2 tap gegn PSV. Napoli keypti meðal annars Kevin De Bruyne og Rasmus Højlund í sumar.